Bókmenntafræ

Ræða í tilefni 50 ára afmælis

Rithöfundasambands Íslands

Gott kvöld,

Ég heiti Ewa Macinek og stend hér í dag sem íslenskur rithöfundur. Íslenskur rithöfundur? Hvernig getur það verið? spyr ég sjálfa mig í forundran.

Ég fæddist í Póllandi. Mamma og pabbi töluðu pólsku. Ég gekk í skóla þar. Líf mitt fór fram á pólsku. Ég lærði skapandi skrif í háskóla, á póllsku. Ég orti nokkrar sögur og ljóð á pólsku. Var ég þá rithöfundur í Póllandi? Nei. Það var ég ekki. Kannski var ég fræ, lítið bókmenntafræ sem hafði gaman af því að ferðast.

Ég kom til Íslands árið 2013. Ég ætlaði að vera hér í þrjá mánuði en síðan eru liðin ellefu ár. Einn daginn sótti ég ritsmiðju sem þið, Íslendingar, hélduð fyrir konur af erlendum uppruna. Ég var feimin en þið pökkuðuð ofan í tösku fyrir mig, kysstuð mig blíðlega og ýttuð mér út um dyrnar. Í ritsmiðjunni byrjaði ég að skrifa um nýja líf mitt á Íslandi.

Fljótlega eftir það var mér boðið á ljóðakvöld. Við lásum saman. Ég var svo spennt að mér tókst að brenna hádegismatinn við. Þið sögðuð að ég skrifi vel og þið báðuð mig að lesa meira. Svo las ég aftur og aftur á börum ykkar, kaffihúsum, hótelum, bókabúðum, bókasöfnum og á hátíðum. Ég las í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri, Ísafirði, Hveragerði, Vestmannaeyjum, Höfn og á Seyðisfirði. Í hvert sinn buðuð þið mér.

Ég mun aldrei gleyma kvöldinu þegar þið kvödduð mig uppi á sviði með orðunum: Loksins eigum við pólskan rithöfund á Íslandi! Ég man eftir brosi ykkar. Það var svo hlýtt.

Þið, Íslendingar, settuð ljóð eftir mig á vegg úti á götu sem listaverk. Þið þýdduð smásöguna mína og birtuð hana í tímariti ykkar. Þið borguðuð mér fyrir skrifin. Peningar? Ég trúði því ekki. Ég hugsaði með mér: Ef ég var ekki rithöfundur áður, þá er ég það núna.

Myndið þið trúa því ef ég segði að þið gáfuð mér lykil að heimili ykkar? Að þið sögðuð að ég gæti notað það hvenær sem er til að skrifa? Þetta er ekki myndlíking. Þið gáfuð mér skrifborð og heimili.

Einu sinni þegar við fengum okkur kaffi hér í Iðnó spurðuð þið mig hvort ég ætti texta sem mætti breyta í leikrit. Fyrst settuð þið bókina mína á svið, svo þýdduð þið hana og gáfuð hana út. Þá varð ég alvöru rithöfundur. Þökk sé ykkur.

Ég stend hér í dag sem íslenskur rithöfundur. Ég er íslenskur rithöfundur ekki vegna þess að ég á heima hér. Ég fæddist ekki hér á landi, ég yrki ekki á íslensku. Ég er íslenskur rithöfundur vegna þess að Ísland skóp mig sem skáld. Þið sköpuðuð mig með stuðningi ykkar, boðum, áhuga, góðvild og hjálp. Af ykkur lærði ég hvernig á að vera rithöfundur.

Í dag erum við saman hér til að fagna fimmtíu ára afmæli þessa fallega sambands sem styður ALLT fólk sem skrifar, les, þýðir og lifir í gegnum bókmenntir. Mig langar að segja takk fyrir mig og til hamingju.


12.05.2024, Íðnó í Reykjavík